Rannsókn

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur með höndum rannsóknir vegna brota á lögum um skatta og gjöld sem á eru lögð af hálfu ríkisskattstjóra eða sem því embætti er falin framkvæmd á. Rannsóknarheimildir skattrannsóknarstjóra taka m.a. til meintra brota á lögum um tekjuskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts. Skattrannsóknarstjóri getur tekið til rannsóknar framtalsskil og skattskil allra manna og lögaðila sem framtalsskyldir eru, hvort sem framtalsskyldu hefur verið fullnægt eða ekki. Þá hefur skattrannsóknarstjóri heimild til að rannsaka bókhald, grundvöll skattskila og ársreikninga.

Upphaf rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra á skattsvikum eða öðrum refsiverðum brotum getur verið með ýmsum hætti; tilkynning frá ríkisskattstjóra, samkvæmt tilvísun frá lögreglu eða samkvæmt kæru, tilkynningu eða ábendingu frá þriðja manni. Þá hefur skattrannsóknarstjóri heimild til að taka mál til rannsóknar að eigin frumkvæði. Skattrannsóknarstjóri metur hvort mál sem borist hafa embættinu skuli sæta rannsókn og tekur ákvörðun um afmörkun á rannsókn máls, þ.m.t. til hvaða ára eða tímabila rannsókn tekur, hvaða atriði eru rannsökuð, og að öðru leyti með hvaða hætti rannsókn fer fram.

Við rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra er gætt ákvæða sakamálalaga eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi og eru rannsóknirnar ígildi lögreglurannsóknar á sviði skattamála.

Formlega er upphaf rannsóknar miðað við þann dag sem skattrannsóknarstjóri gerir aðila eða fyrirsvarsmanni lögaðila kunnugt um að rannsókn sé hafin á framtals- eða skattskilum hans. Er það að jafnaði gert bréflega. Meðfylgjandi því bréfi eru leiðbeiningar við rannsókn. Strax við upphaf rannsóknar er farið fram á afhendingu bókhaldsgagna og annarra gagna er varða skattskilin sem eru síðan afhent aftur þegar meðferð máls er endanlega lokið. Aðilum er tryggður nauðsynlegur aðgangur að bókhaldsgögnum meðan á meðferð máls stendur til þess að framtalsskil geti farið fram.

Skattrannsóknarstjóra eru að lögum tryggðar víðtækar heimildir til gagnaöflunar. Skylda til afhendingar gagna er víðtæk og tekur til allra aðila sem hafa upplýsingar í vörslu sinni. Er þeim skylt að láta skattrannsóknarstjóra í té umbeðnar upplýsingar ókeypis og í því formi sem óskað er. Þagnarskylduákvæði annarra laga víkja fyrir þessari skyldu. Skattrannsóknarstjóri getur vísað máli til sakamálarannsóknar hjá lögreglu gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni. Þá getur skattrannsóknarstjóri aflað gagna erlendis frá á grundvelli upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga.

Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til leitar og haldlagningar gagna á starfsstöð án undangengins dómsúrskurðar. Í þeim tilvikum þegar slík leit er framkvæmd er hún yfirleitt framkvæmd samhliða tilkynningu um rannsókn. Ekki er upplýst um þær aðgerðir fyrirfram. Sem liður í haldlagningu gagna er afrit tekið af tölvugögnum og vettvangur ljósmyndaður ef ástæða er til. Af hálfu skattrannsóknarstjóra er farið fram á að fyrirsvarsmaður eða lögmaður hans sé viðstaddur þegar leit og haldlagning gagna á sér stað. Skattrannsóknarstjóri hefur heimild til leitar á heimilum aðila að undangengnum dómsúrskurði. Þá hefur skattrannsóknarstjóri heimild til að fá liðsinni lögreglu á vettvangi í þágu rannsóknar ef ástæða er til. Í kjölfar haldlagningar gagna fer fram skoðun þeirra og úrvinnsla á starfsstöð embættisins. Á það jafnt við um gögn á pappírsformi og rafræn gögn, þ. á m. haldlagða tölvupósta Heimilt er að bera haldlagningu og aðrar rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra undir dóm, en kæra frestar að jafnaði ekki framkvæmd.   

Heimild er til kyrrsetningar eigna vegna rannsóknar máls hjá skattrannsóknarstjóra til tryggingar skattkröfu og fésekt. Tollstjóri annast framkvæmd kyrrsetningar í kjölfar tilkynningar frá skattrannsóknarstjóra. Þá getur skattrannsóknarstjóri látið lögreglu stöðva atvinnurekstur vanræki  skattskyldur aðili að færa tilskilið bókhald eða nota tilskilið söluskráningarkerfi eða ef því kerfi er verulega áfátt og fyrirmælum um úrbætur hefur ekki verið sinnt.

Sem liður í rannsókn máls eru teknar skýrslur af aðilum í samræmi við lög um meðferð sakamála. Við skýrslugjöf hafa aðilar því annað tveggja réttarstöðu sökunauts eða vitnis. Skýrslugjafi sem grunaður er um refsiverða háttsemi getur haft með sér við skýrslutöku lögmann sem hann ræður á sinn kostnað. Jafnframt kann hann að eiga rétt á að fá tilnefndan verjanda. Skýrslutökurnar fara fram með formlegum hætti og að jafnaði teknar í hljóði og mynd. Boðun til skýrslugjafar er yfirleitt skrifleg og kemur þar fram hvort aðili er grunaður um refsiverða háttsemi eða hvort hann er kvaddur til sem vitni. Ef aðili mætir ekki til skýrslugjafar getur skattrannsóknarstjóri óskað liðsinni lögreglu til að færa mann til skýrslugjafar. Áður en skýrslutaka hefst er skýrslugjafa gerð grein fyrir tilefni skýrslutökunnar, réttarstöðu hans og þýðingu hennar. Hámarkslengd hverrar skýrslutöku er 12 klst. á hverjum 24 klst. en skýrslugjafi getur óskað eftir að gert verði hlé á skýrslutöku í eina klst. eftir 4 klst.

Markmið rannsóknar skattrannsóknarstjóra er að afla allra nauðsynlegra gagna og upplýsa málsatvik til þess að unnt sé að ákvarða hvort skattskil hafi verið röng eða byggð á vafasömum, hæpnum eða ófullnægjandi forsendum, svo leggja megi grundvöll að endurákvörðun skatta og gjalda, og unnt sé að meta hvort krafist skuli refsimeðferðar og þá með hvaða hætti.

Við lok rannsóknar máls hjá skattrannsóknarstjóra er tekin saman skýrsla um rannsóknina og niðurstöður hennar. Í skýrslunni kemur m.a. fram hvaða sönnunargögn liggja til grundvallar niðurstöðu rannsóknarinnar, hverjir hafa komið til skýrslugjafar, hver sé ætlaður undandreginn skattur eða skattstofn og hvort og hvenær skila- eða gjaldskyldum skatti hafi verið skilað, ef um það er að ræða. Áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um framhald málsins er gefinn kostur á að koma að andmælum við efni skýrslunnar og frekari gögnum og skriflegum skýringum.

Rannsókn máls lýkur með því að tekin er saman lokaskýrsla um rannsóknina þar sem eftir atvikum er tekið tillit til sjónarmiða og gagna sem borist hafa í andmælafresti. Er þannig endanleg skýrsla send viðkomandi aðilum með bréfi þar sem jafnframt er gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum áður en ákvörðun er tekin um refsimeðferð málsins. Eintak af skýrslunni er jafnframt sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda þess embættis, nema það sé sýnilega þarflaust.

Leiðbeiningar um rannsókn mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins