Refsimeðferð

Mál sem rannsökuð eru hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sæta nærri því öll refsimeðferð enda öðrum þræði í samræmi við þann tilgang rannsóknarinnar að upplýsa um refsiverð brot. Í einstaka undantekningatilfellum kemur ekki til refsimeðferðar í samræmi við niðurstöðu rannsóknar. Refsimeðferð getur verið sektarmeðferð hjá skattrannsóknarstjóra; sektarmeðferð hjá yfirskattanefnd; eða refsimeðferð hjá dómstólum eftir opinbera rannsókn hjá lögreglu, nú hjá embætti sérstaks saksóknara. Áður en skattrannsóknarstjóri tekur ákvörðun um refsimeðferð gefur hann að jafnaði og sé þess kostur, sakborningi tækifæri til að tjá sig áður en endanleg ákvörðun er tekin. Bréf þess efnis er sent sakborningi. Meðfylgjandi bréfinu eru leiðbeiningar um refsimeðferð .

Ef mál telst að fullu upplýst og brot varða ekki hærri sektarfjárhæð en 6 milljónum króna getur skattrannsóknarstjóri boðið sakborningi að ljúka málinu með sekt. Boðuð sektarfjárhæð er þá tilkynnt sakborningi skriflega. Ef hann óskar eftir að ljúka máli með þessum hætti gengst hann skriflega undir sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra. Verði máli ekki lokið með þessum hætti tekur skattrannsóknarstjóri ákvörðun um hvort málið verði sent til yfirskattanefndar eða því vísað til lögreglumeðferðar. Vararefsing fylgir hvorki sektarákvörðunum skattrannsóknarstjóra né sektarúrskurðum yfirskattanefndar, en þær sektir eru innheimtar eftir sömu reglum og um skatta.

Ef skattrannsóknarstjóri tekur ákvörðun um að vísa máli til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd, er sakborningi tilkynnt sú ákvörðun skriflega. Þegar kröfugerð skattrannsóknarstjóra hefur borist yfirskattanefnd, veitir nefndin sakborningi frest til að koma að andmælum og athugasemdum við kröfugerðina, áður en hún fellir úrskurð sinn. Skilyrði þess að yfirskattanefnd fjalli um mál sakbornings er að hann hafi gefið til kynna á sannanlegan hátt að hann vilji hlíta því að málið verði afgreitt af yfirskattanefnd. Yfirskattanefnd kveður upp úrskurð í sektarmálinu þess efnis að sakborningi sé annaðhvort gert að sæta sekt eða synjað er kröfu skattrannsóknarstjóra um sekt. Að jafnaði fer skattrannsóknarstjóri ekki fram með kröfu fyrir yfirskattanefnd um ákveðna sektarfjárhæð, heldur er fjárhæðin ákvörðuð af yfirskattanefnd.

Skattrannsóknarstjóri vísar máli til lögreglumeðferðar hjá sérstökum saksóknara ef háttsemi er talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga. Getur skattrannsóknarstjóri af sjálfsdáðum vísað máli til lögreglu á hvaða stigi rannsóknar sem er. Óski sakborningur eftir því að máli hans verði vísað til meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara, ber skattrannsóknarstjóra þegar að vísa málinu þangað. Taki skattrannsóknarstjóri ákvörðun um að vísa máli til lögreglu er sakborningi að jafnaði tilkynnt sú ákvörðun skriflega. Eftir það er forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð í höndum embættis sérstaks saksóknara. Að lokinni lögreglurannsókn tekur saksóknari við embættið ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út eða mál fellt niður, verði það ekki talið líklegt til sakfellis. Refsing hjá dómstólum getur verið fangelsi og/eða fésekt.

Fjöldi mála frá skattrannsóknarstjóra sem sætt hafa refsimeðferð sl. þrjú ár:

 

Málum vísað til Héraðssaksóknara

Krafa um sekt fyrir yfirskattanefnd Sektargerðir hjá skattrannsóknarstjóra
2018  61 28 10
2019 67 25 13
2020 62 16 7