Peningaþvætti

Peningaþvætti

Til þess að nota fé sem á uppruna sinn í refsiverðu athæfi verða þeir sem hafa framið afbrotið að láta ágóðann líta út eins og hans hafi verið aflað löglega og reyna því að þvætta hann innan hins hefðbundna fjármálakerfis. Með peningaþvætti er tilgangurinn hjá hinum brotlega að láta illa fengið fé líta út eins og þess hafi verið aflað heiðarlega og að njóta þannig ávaxtanna af glæpum sínum.

Peningaþvætti er hvers konar viðtaka eða meðhöndlun ávinnings sem fenginn er með refsiverðu athæfi, hvort sem brotið er gegn almennum hegningarlögum eða sérrefsilögum.

Hugtakið peningaþvætti er nánar skilgreint í lögum nr. 140/2008 um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samkvæmt ákvæðinu er það peningaþvætti þegar einstaklingur eða lögaðili

  • tekur við ávinningi, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum;
  • umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða
  • stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.

Í 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er peningaþvætti lýst refsivert. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum, eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings, sæta fangelsi allt að 6 árum.

Í 2. mgr. 264. gr. hgl. kemur fram að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir. Þessi háttsemi hefur verið kölluð sjálfþvætti og felur í sér frumbrot annars vegar og þvætti af ávinningi frumbrots hins vegar. Þar sem um er að ræða tvö sjálfstæð brot er áréttað í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gildi eftir því sem við á.

Andlag brots í skilningi 264. gr. almennra hegningarlaga er víðtækt og getur verið hvers konar ávinningur. Um er að ræða hvers kyns hagnað og eignir, hverju nafni sem hann nefnist, hvort sem um er að ræða fasteignir eða lausafjármuni. Þannig er ekki aðeins átt við um ávinning í formi reiðufjár heldur einnig ávinning sem getur verið fólginn í fasteignum, bifreiðum, málverkum sem og öðrum lausafjármunum. 

Hvað er frumbrot peningaþvættis?

Frumbrot peningaþvættis eru þau brot sem geta leitt af sér ólöglegan ávinning eða annan ágóða sem reynt er að þvætta. Frumbrot peningaþvættis geta verið öll brot á almennum hegningarlögum eða sérrefsilögum. Dæmi um algeng frumbrot eru þjófnaður, fjársvik, fjárdráttur, skattalagabrot og fíkniefnabrot, innherjasvik, fjárkúgun og mútur o.s.frv.

Hver eru viðurlög við peningaþvætti?

Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga varðar peningaþvætti allt að 6 ára fangelsi sé um ásetning að ræða og allt að 6 mánaða fangelsi sé um gáleysi að ræða sbr 4. mgr. 264. almennra hegningarlaga.

Sé um ávinning af fíkniefnabroti að ræða getur refsing orðið allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt almennum hegningarlögum er refsað fyrir brot gegn 264. gr. sem framið er innan íslenska ríkisins enda þótt frumbrotið sem ávinningur stafi frá hafi verið framið erlendis, og án tillits til hver var að því valdur.

Sjálfsþvætti getur varðað allt að 6 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 264. gr. hgl., það er þegar sami aðili fremur frumbrot og þvættar sjálfur ólögmæta ávinninginn.

Fjármögnun hryðjuverka getur varðað allt að 10 ára fangelsi samkvæmt 101. gr. b. almennra hegningarlaga.

Þrjú stig peningaþvættis

Oftast er talað um þrjú stig peningaþvættis.

1. Endurröðun (e. placement):

Þetta stig snýst um að koma fjármunum sem fengnir eru með ólögmætu athæfi inn í hefðbundið fjármálakerfi. Þetta er meðal annars gert með því að skipta stórum upphæðum niður í smærri upphæðir sem eru síðan lagðir inn á bankareikninga. Oft er um lágar fjárhæðir að ræða til að vera undir lögmætum mörkum og komast hjá frekari skoðun eftirlitsaðila. Annað dæmi er að blanda ólögmætu fé saman við lögmætt fé með því að færa hann inn í rekstur sem skilar miklum tekjum í reiðufé /færa hann inn í rekstur þar sem reiðufjárviðskipti eru algeng.

2. Aðgreining (e. layering):

Eftir að fjármunirnir sem fengnir eru með ólögmætu athæfi eru komnir inn í fjármálakerfið er það flutt eða fært á milli með ýmsum leiðum. Aðilinn reynir hér að skilja sig frá ólögmæta ávinningnum og mynda fjarlægð milli sín og ávinningsins þannig að ekki sé hægt að tengja ávinninginn uppruna sínum. Hér getur oft verið um að ræða millifærslu fjármuna milli bankareikninga, til dæmis milli ríkja. Einnig geta félög verið notuð, til dæmis til að slíta slóð fjármuna með millifærslum á erlend félög sem hafa enga raunverulega starfsemi. Þetta stig slítur slóð fjármunanna og dylur raunverulegt eignarhald á þeim.

3. Samþætting (e. integration):

Hér er markmiðið að koma ólögmæta ávinningnum aftur í hendur aðilans. Ýmsar leiðir eru hér farnar. Algeng aðferð er í formi lána. Þegar ávinningurinn er kominn aftur í hendur aðilans fjárfestir hann oft í eignum, svo sem fasteignum eða bifreiðum sem dæmi.

Hins vegar þarf peningaþvætti ekkert að vera flókið ferli. Til dæmis er talað um peningaþvætti þegar lagt er inn fé sem er illa fengið á bankareikning og það geymt þar. Sem dæmi má nefna að það telst peningaþvætti að geyma eða millifæra sér ávinning af skattaundanskoti. Þá geta þessi stig oft blandast.

Skattsvik og peningaþvætti

Skattalagabrot eru eitt af algengustu frumbrotum peningaþvættis samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt áhættumatsskýrslu ríkislögreglustjóra sem kom út í apríl 2019 kemur fram að áætlað sé að skattsvik séu langstærsti hluti frumbrota peningaþvættis hér á landi.

Skattsvik af ýmsu tagi falla hér undir, s.s. undanskot á greiðslu virðisaukaskatts, undanskot frá greiðslu tekjuskatts af launum og launatengdum gjöldum, vantalinn tekjuskattur af atvinnurekstri vegna oftalsins kostnaðar eða vantalinna tekna og vantalin eða vangoldin önnur opinber gjöld, þ.á m. í tengslum við tekjur frá aflandsfélögum. Þá getur verið um að ræða virðisaukaskattssvik með útgáfu tilhæfulausra reikninga.

Lög um peningaþvætti og aðgerðir gegn fjármögnunar hryðjuverka nr. 140/2018

Ný lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka tóku gildi 1. janúar 2019. Lögin byggja á grunni eldri laga um sama efni nr. 64/2006.

Markmið hinna nýju laga er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.

Meginefni laganna felst í skyldu tilkynningaskyldra aðila að kanna hver viðskiptavinurinn er, framkvæma áhættumat í rekstri sínum og viðskiptum sem og að haga innra skipulagi með þeim hætti að þeim sé kleift að greina allar grunsamlegar færslur og viðskipti. Ef viðskiptin eru grunsamleg með tilliti til peningaþvættis ber að tilkynna allar grunsamlegar færslur eða viðskipti til skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu.

Samkvæmt lögunum ber tilkynningaskyldum aðilum sem falla undir lögin að athuga og greina öll viðskipti og fyrirhuguð viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Sem dæmi skal athuga öll viðskipti sem eru óvenjuleg eða flókin með hliðsjón af hinni venjubundinni starfsemi. Ber þá að athuga bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta eins og hægt er. Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna öll grunsamleg viðskipti til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um leið og grunur vaknar um að tiltekin viðskipti eða færslur megi rekja til refsiverðrar háttsemi eða fjármögnunar hryðjuverka.

Í lögunum er jafnframt skylda að forðast skuli viðskipti, þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að þau megi rekja til refsiverðrar háttsemi. Þá er í lögunum jafnframt kveðið á um að í nánar tilgreindum tilvikum sé bannað að bjóða upp á nafnlaus viðskipti, taka þátt í eða stuðla að viðskiptum sem ætlað er að dylja raunverulegt eignarhald og stofna til eða halda áfram viðskiptum við skelbanka.