FATF

Á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París árið 1989 var settur á stofn alþjóðlegur vinnuhópur í þeim tilgangi að vinna að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtæki væru misnotuð til að koma illa fengnu fé í umferð. Nefnast þessi samtök Financial Action Task Force on Money Laundering (FATF). Í september 1991 gekk Ísland til samstarfs við FATF, og með aðild sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf sína að tilmælum og tillögum FATF.

Hlutverk og starfssvið FATF hefur verið greint í þrennt: Í fyrsta lagi að semja staðla fyrir aðgerðir í aðildarríkjunum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í öðru lagi að leggja mat á aðgerðir einstakra ríkja við innleiðingu þessara staðla og í þriðja lagi að rannsaka og læra að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

FATF hefur gefið út 40 tilmæli um aðgerðir gegn peningaþvætti og eru þau leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau.

Í upphafi árs 2017 hóf FATF úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.