Jafnréttisáætlun skattrannsóknarstjóra ríkisins 2018 - 2021
Leiðarljós
Embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins er eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti kynjanna er í heiðri haft og konur og karlar hafa jöfn tækifæri til að nýta starfsorku sína og þroska hæfileika óháð kyni.
Jafnréttisáætlun skattrannsóknarstjóra
Jafnréttisáætlun þessi tekur til embættis skattrannsóknarstjóra sem vinnustaðar starfsfólks, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga), og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki stofnunarinnar þau réttindi sem kveðið er á um í 19. – 22. gr. laganna.
Markmið jafnréttisáætlunar
Markmið jafnréttisáætlunar skattrannsóknarstjóra er að tryggja jafnrétti kynjanna, jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan stofnunarinnar og að stjórnendur og starfsfólk séu meðvituð um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Með jafnri stöðu kvenna og karla er hver starfsmaður metinn á eigin forsendum, tækifæri einstaklinga eru jöfn á sem flestum sviðum óháð kynferði og þannig er tryggt að mannauður stofnunarinnar nýtist sem best. Kynbundin mismunun, í hvaða formi sem er, er óheimil hjá stofnuninni og skal útrýmt komi hún í ljós.
Launajafnrétti
Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu allir njóta sömu kjara fyrir sömu eða sambærileg og jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun.
Laun eru samkvæmt 8. tl. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans. Kjör eru samkvæmt 9. tl. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.
Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. jafnréttislaga er starfsmönnum stofnunarinnar ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo. Er yfirmanni eða öðrum sem koma að ákvörðun launa óheimilt að óska trúnaðar starfsmanns um launakjör sín.
Stefnt er að innleiðingu jafnlaunastaðals samkvæmt ÍST 85, sbr. 1. gr. c staðalsins, á gildistíma áætlunarinnar og síðar vottun, sbr. 10. tl. 2. gr. jafnréttislaga.
Markmið |
Aðgerð |
Ábyrgð |
Tímarammi |
Uppræta kynbundinn launamun |
#1: Árlega skal gera jafnlaunaúttekt. Komi í ljós kynbundinn launamunur sem ekki er unnt að skýra með málefnalegum hætti, þarf að bregðast við og leiðrétta þann mun. Skattrannsóknarstjóri kynnir niðurstöður jafnlaunaúttektar fyrir starfsfólki stofnunarinnar. |
Fjármálastjóri |
Í nóvember ár hvert |
#2: Til að tryggja launajafnrétti skal stofnunin innleiða jafnlaunastaðal ÍST 85:2012. |
Fjármálastjóri |
Innleiðingu skal lokið fyrir 31. desember 2019 |
|
Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun
Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum. Um auglýsingu í laus störf er farið eftir fyrirmælum í lögum. Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í ýmsum störfum innan stofnunarinnar. Jafnréttissjónarmið eru metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við ráðningu. Ef tveir jafnhæfir einstaklingar sækja um auglýsta stöðu skal sá af því kyni sem er í minnihluta í slíkum störfum hjá stofnuninni að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningu. Áhersla skal lögð á jafna stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum.
Tryggt verði að konur og karlar njóti sömu möguleika til starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi. Þess verði gætt við úthlutun og þátttöku í verkefnum, og tækifæra til að axla ábyrgð að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis. Sama gildir um starfs- eða vinnuhópa sem starfsfólk er skipað í.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Jafn aðgangur að störfum | #3: Í auglýsingum eru störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð þeirra. Hvetja skal bæði kynin til að sækja um auglýst störf. |
Skattrannsóknarstjóri | Alltaf |
Kynjablandaður vinnustaður |
#4: Ef á annað kynið hallar ber að gæta sérstaklega að jafnréttissjónarmiðum þegar nýráðningar eða tilfærslur í störfum innan stofnunarinnar eiga sér stað og nýta þá tækifæri til að rétta hlut þess kyns sem á hefur hallað. Forstöðumenn viðkomandi sviðs vinna úr auglýsingum og stilla upp hæfi. Ákvörðun tekin í samráði við skattrannsóknarstjóra. |
Skattrannsóknarstjóri og forstöðumenn |
Alltaf |
Jafn aðgangur að starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun |
#5: Rekstrarstjóri skal halda kynjagreint bókhald yfir þátttöku starfsfólks í námskeiðum, í annarri skipulagðri endurmenntun og í starfs- og vinnuhópum svo unnt sé að greina hvort á annað kynið hallar við nýtingu slíkra tækifæra. Forstöðumenn upplýsa rekstrarstjóra um þáttöku þeirra starfsmanna í námskeiðum, endurmenntun og starfs- og vinnuhópum. Komi munur í ljós ber að gera ráðstafanir til að bregðast við honum. Þær aðgerðir eru á verksviði viðkomandi forstöðumanns og skattrannsóknarstjóra. |
Skattrannsóknarstjóri forstöðumenn og fjármálastjóri |
Í janúar ár hvert |
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Skal starfsfólk eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið til að auðvelda samræmingu starfs og einkalífs. Gera skal ráð fyrir að karlar jafnt sem konur njóti sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum. Séu aðstæður starfsmanns óvenjulegar á einhvern hátt getur hann leitað til yfirmanns síns eða forstöðumanns sem leita leiða til að mæta þörfum viðkomandi. Leitast skal við að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna starfsmanna eftir því sem unnt er. Í vissum tilvikum getur starfsmaður unnið hluta starfs síns heima. Leitast er við að koma til móts við óskir starfsmanna um tímabundið hlutastarf vegna endurkomu úr barnseignar- eða veikindaleyfi og einnig sem leið til að draga úr vinnu í aðdraganda starfsloka og lífeyristöku.
Öllum starfsmönnum skal tryggð góð vinnuaðstaða og aðbúnaður í húsnæði stofnunarinnar. Leitast skal við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs | #6: Starfsfólki skulu kynnt úrræði á borð við sveigjanlegan vinnutíma og einstaklingsbundnar lausnir. Einnig réttur til fæðingarorlofs og veikindadaga með börnum. | Skattrannsóknarstjóri | Alltaf |
Halda yfirvinnu starfsfólks innan hóflegra marka og uppræta kynbundinn mun þar á | #7: Fara skal yfir fjölda yfirvinnustunda og gera kyngreint yfirlit yfir þær. Rekstrarstjóri annast um það. Leitast skal við að tryggja að yfirvinna starfsfólks sé innan eðlilegra marka og hafi þannig ekki áhrif á fjölskyldulíf. Bregðast skal við með endurskipulagningu verkefna eða annarri vinnuhagræðingu ef þörf er á. Sé aðgerða þörf er það á verksviði viðkomandi forstöðumanns og skattrannsóknarstjóra. | Skattrannsóknarstjóri, forstöðumenn og fjármálastjóri | Í janúar ár hvert |
Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni
Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og ætlast er til að starfsmenn umgangist hver annan af virðingu og kurteisi og stuðli með því að vinsamlegu og jákvæðu andrúmslofti á vinnustaðnum. Ef ágreiningur verður milli starfsmanna skal leitast við að leysa hann með uppbyggilegum hætti. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, og kynbundið ofbeldi er óásættanleg hegðun og ekki liðin.
Í jafnréttislögum eru eftirfarandi skilgreiningar, sbr. 3., 4., og 5. tl. 2. gr. laganna:
- Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
- Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
- Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Unnið skal markvisst að því að skapa menningu jafnréttis innan stofnunarinnar. Í því felst að skapa umhverfi þar sem hægt er að ræða opinskátt um menningu og staðalmyndir og hvernig hægt er að stuðla að fordómalausu samfélagi. Stofnunin hefur samþykkt (nóvember 2017) verkferil um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundini áreitni og ofbeldi. Skal verkferillinn kynntur starfsfólki stofnunarinnar og endurskoðaður á gildistíma áætlunarinnar.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Vinna gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni | #8: Kynna skal fyrir starfsfólki verkferil stofnunarinnar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Verkferilinn skal birta í Gæðahandbók stofnunarinnar á innra vef hennar. Verkferillinn skal endurskoðaður á gildistíma jafnréttisáætlunarinnar. | Skattrannsóknarstjóri | Endurskoðun lokið í janúar 2020 |
Jafnréttisnefnd
Jafnréttisnefnd stofnunarinnar skal skipuð tveimur starfsmönnum til tveggja ára í senn. Nefndin er skipuð af skattrannsóknarstjóra. Hlutverk nefndarinnar er að fylgja markmiðum jafnréttisáætlunarinnar eftir og vera ráðgefandi fyrir stjórnendur og starfsmenn.
Gildistími og endurskoðun
Jafnréttisáætlun þessi gildir í þrjú ár frá samþykki skattrannsóknarstjóra.
Samþykkt af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins
Reykjavík 9. maí 2018
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri