Mannauðsstefna

Mannauðsstefna skattrannsóknarstjóra ríkisins

1. Stefnumið.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur þá stefnu að embættið hafi á að skipa hæfu starfsfólki, áhugasömu og traustu.

Með mannauðsstefnu sinni leggur skattrannsóknarstjóri ríkisins fram áherslur embættisins um ráðningar í störf hjá embættinu, starfsþróun starfsmanna, starfsumhverfi og samskipti starfsmanna innbyrðis og gagnvart embættinu.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins leggur á það áherslu að starfsmenn séu efldir í starfi og hafi til að bera frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum. Jafnframt er lögð á það áhersla að traust og gott samstarf ríki innan embættisins.

2. Ráðningaferli.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins sækist eftir að ráða til starfa hæfa og metnaðarfulla einstaklinga sem eru tilbúnir til að takast á við krefjandi verkefni í síbreytilegu umhverfi. Allar stöður eru auglýstar í samræmi við lög og reglur. Embættið hefur það að leiðarljósi að ráða þá starfsmenn sem teljast best fallnir til þess að gegna þeim störfum sem um er að ræða hverju sinni. Í því sambandi metur embættið allar umsóknir hlutlægt og heildstætt eftir menntun, aldri, fyrri störfum, annarri reynslu og öðru sem máli er talið skipta.

3. Nýir starfsmenn.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins leggur áherslu á að vel sé tekið á móti nýjum starfsmönnum. Á fyrsta degi skal nýr starfsmaður kynntur fyrir hverjum og einum starfsmanni stofnunarinnar, honum fengið kynningarefni um embættið og störf þess ásamt því að honum skal kynnt nýting sameiginlegs rýmis, tækni og búnaðar. Þá skulu honum kynnt ákvæði laga um þagnarskyldu og brýnd trúmennska, heiðarleiki og vönduð vinnubrögð. Leitast skal við að fá reyndari starfsmann til að gegna hlutverki sérstaks leiðbeinanda á meðan nýr starfsmaður setur sig inn í starfið og starfsumhverfið. Nýjum starfsmaður skal fenginn lykill að vinnustað hans ásamt viðeigandi aðgangi að öryggiskerfum. Vinnustöð hans skal búin þægilegum búnaði út frá vinnuverndarsjónarmiðum sem tekur jafnframt mið af þörfum hans.

4. Starfskjör.

Þegar ekki er um að ræða tímabundna ráðningu er í ráðningarsamningi gert ráð fyrir reynslutíma til nokkurra mánaða. Notað er staðlað ráðningarsamningsform frá fjármálaráðuneytinu. Í ráðningarsamningi er kveðið á um vinnutíma, vinnustað, gildistíma, uppsagnartíma, tegund starfs, hvaða lífeyrissjóð starfsmaður greiðir til, stéttarfélag, hvort um tímabundna ráðningu er að ræða, launaflokk, fastar greiðslur ef einhverjar eru auk annarra staðlaðra samningsatriða.

Launakjör eru ákveðin í kjarasamningum en taka jafnframt mið af einstaklingsbundnum þáttum í stofnanasamningi milli skattrannsóknarstjóra ríkisins og hlutaðeigandi stéttarfélags. Jafnframt er horft til frammistöðu starfsmanna, hæfni þeirra til úrlausnar mála og þekkingar á viðfangsefnum.

5. Starfslýsingar.

Til staðar eru starfslýsingar fyrir öll störf innan embættisins. Starfslýsingar taka breytingum samhliða þróun starfa. Starfsmenn skulu koma með ábendingar ef starf þeirra hefur tekið breytingum frá starfslýsingu.

6. Þagnarskylda.

Starfsmönnum er skylt við upphaf starfs að vinna þagnareið og skulu halda í öllum sínum störfum halda í heiðri ákvæði laga um þagnarskyldu opinberra starfsmanna svo og ákvæði skattalaga um þagnarskyldu. Þagnarskyldan helst þótt starfsmaður láti af starfi. Þá skal sérstaklega að því gætt að starfsmaður hafi ekki aðgang að trúnaðarupplýsingum eftir að hann lætur af störfum.

7. Jafnréttismál.

Ákvæði laga og reglna sem varða jafnréttismál skulu virt og leitast við að jafna stöðu kynjanna hjá stofnuninni. Við starfsráðningar skal haft í huga ef um jafnhæfa umsækjendur er að ræða að ráða frekar það kynið sem er í minnihluta hjá stofnuninni Í jafnrétti felst m.a. að starfsmönnum er ekki mismunað eftir aldri, kynferði, þjóðerni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum eða trúarskoðunum Stofnunin hefur útbúið jafnréttisáætlun og um jafnréttismál er vísað til hennar að öðru leyti.

8. Samskipti á vinnustað.

Starfsmönnum ber að sýna samstarfsfélögum virðingu og háttvísi í öllum samskiptum. Einelti, kynferðisleg eða kynbundin áreitni er ekki liðin, í hvaða formi sem slík háttsemi kann að birtast. Ætlast er til að yfirmanni verði gerð grein fyrir háttsemi sem þar kann að falla undir.

9. Umgengni á vinnustað.

Starfsmönnum ber að vera snyrtilegir til fara við vinnu sína og klæðast viðeigandi fatnaði hverju sinni. Umgengni um húsnæði, búnað og verkfæri stofnunarinnar á að vera þannig að hvorki hljótist tjón af né hlutir skemmdir.

10. Mætingar, viðvera og netnotkun.

Starfsmenn eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, þótt almennt sé gerð krafa um viðveru á opnunartíma stofnunarinnar. Þó á það ekki við um alla starfsmenn, m.a. þá sem sinna símvörslu og móttöku viðskiptamanna. Í sveigjanlegum vinnutíma felst m.a. að starfsmaður skal skila annað hvort ákveðinni viðveru á vinnustað eða ákveðnum verkefnum. Hugsanlega getur komið til greina að starfsmaður vinni hluta starfs heiman frá sér eftir nánara samkomulagi við yfirmann.

Viðvera starfsmanns á vinnustað er ávallt skráð með stimpilklukku. Þurfi starfsmaður að fara af vinnustað vegna funda, erinda á vegum stofnunarinnar eða einkaerinda skal hann skrá slíka fjarveru í fjarvistabækur, og gera viðeigandi ráðstafanir hverju sinni, s.s. varðandi símsvörun. Ætlast er til að starfsmenn stilli töfum á vinnu vegna einkaerinda í hóf, m.a. brottfarir af vinnustað og nota frekar til þess möguleika sveigjanlegs vinnutíma.

Allir starfsmenn hafa aðgang að símum, veraldarvefnum, tölvupósti o.þ.h. Ætlast er til að starfsmenn stilli notkun í einkaþágu á vinnutíma í hóf. Lögð er áhersla á það sérstaklega  að starfsmenn varist að senda einkaerindi undir tölvupóstfangi sem starfsmaður fær vegna starfs síns og er auðkennt stofnuninni.

11. Framkoma við viðskiptavini.

Allir starfsmenn skattrannsóknarstjóra ríkisins skulu í hvívetna sýna kurteisi í öllum samskiptum við rannsóknarþola og aðra þá sem þeir eiga í samskiptum við vegna starfa sinna fyrir stofnunina. Lögð er rík áhersla á að starfsmenn stofnunarinnar séu hafnir yfir allar grunsemdir um möguleg óviðeigandi afskipti eða afskiptaleysi af einstökum málum. Ekki samrýmist hlutverki starfsmanna embættisins að taka að sér eða annast nokkur þau störf eða verkefni, s.s. framtalsgerð gegn þóknun, færslu bókhalds eða annað sem tengist verkefnum embættisins. Í þessu sambandi er lagt að jöfnu, hvort heldur verk sé unnið án greiðslu vegna hagsmunatengsla eða vensla og þess að tekið sé við endurgjaldi í einu eða öðru formi. Þetta á þó ekki við um almennar leiðbeiningar og aðstoð starfsmanna við t.d. framtalsgerð nákominna aðila.

12. Starfsmannasamtöl.

Starfsmannasamtöl fara fram einu sinni á ári. Tilgangur þeirra er að ræða málaefni hlutaðeigandi starfsmanns á opinn og hreinskilinn hátt og fylgja eftir stefnu og markmiðum stofnunarinnar. Hlutaðeigandi starfsmaður og yfirmaður fara þar yfir störf og verkefni liðins árs, meta hvort unnt sé að bæta starfsárangur, markmið starfsmanns, líðan á vinnustað og aðra þætti tengda stofnuninni og verkefnum hennar. Starfslýsing er einnig endurskoðuð og uppfærð ef á þarf að halda.

13. Fræðslumál, símenntun og þekking.

Lögð er áhersla á að starfsmenn stofnunarinnar eigi kost á fræðslu og öflun þekkingar í tengslum við störf sín hjá embættinu. Á hverjum starfsmanni hvílir sú ábyrgð að sækja sér þekkingu og fræðslu eftir því sem við á hverju sinni með það að leiðarljósi að starfi sé sinnt af fagmennsku og með sem hagkvæmustum hætti. Starfsmenn eiga að njóta þeirrar starfsþjálfunar sem þörf er á, vera upplýst um hlutverk sitt og verkefni, hafa góða yfirsýn yfir hvar upplýsingar eru tiltækar og gott aðgengi að þeim upplýsingum sem starf þeirra krefst.

Starfsmenn eru hvattir til að afla sér menntunar og þekkingar sem nýst getur þeim í starfi. Viðkomandi starfsmaður metur fræðsluþörf í samráði við yfirmann. Embættið tekur þátt í kostnaði vegna þessa að öllu leyti eða hluti eftir því sem kostur er og ástæða til hverju sinni.

14. Orlofstaka, veikindi og leyfi.

Starfsmenn skulu skila til yfirmanns óskum um sumarorlof fyrir 15. dag aprílmánaðar. Reynt er að koma til móts við óskir starfsmanna um orlofstöku eins og kostur er. Starfsmenn skulu að jafnaði nýta a.m.k. 2/3 hluta orlofs innan tímabilsins 1. maí – 15. september ár hvert.

Veikindi skal tilkynna samdægurs skrifstofumanni í móttöku. Láta skal dag hvern hvort um áframhaldandi fjarvist sé að ræða. Að jafnaði þarf ekki að skila læknisvottorði nema veikindi séu langvarandi.

Við sérstakar aðstæður svo sem vegna fráfalls náins ástvinar getur starfsmaður fengið leyfi frá störfum í fáeina daga án skerðingar á launum skv. samkomulagi við yfirmann. Tilfallandi fjarvistir frá vinnu vegna læknisferða, jarðarfara o.fl. eru án skerðingar á launum.

Starfsmenn eru hvattir til að efla eigin vellíðan sem og samstarfsmanna sinna m.a. með því að leggja rækt við að efla eigin heilsu með ástundun líkamsræktar. Embættið styrkir starfsmenn við ástundun líkamsræktar.

15. Ferðir á vegum vinnuveitenda.

Ferðir innanlands og erlendis skulu aðeins farnar eftir samþykki viðkomandi yfirmanns. Stilla skal ferðum í hóf eftir því sem tök eru á og leita hagkvæmustu leiða til að lágmarka ferðakostnað. Við ferðalög innanlands skal leitast við að nota bifreið stofnunarinnar eftir því sem tök eru á.

16. Starfslok.

Við starfslok, hvort sem til eru komin vegna ráðningar starfsmanns í annað starf hjá öðrum vinnuveitanda, vegna aldurs eða af öðrum ástæðum, leggur embættið áherslu á að vandað sé til viðskilnaðar og yfirtöku annarra starfsmanna á starfssviði og verkefnum viðkomandi starfsmanns. Við starfslok skal fara fram starfslokasamtal. Í því skal áréttuð þagnarskylda þess starfsmanns sem lætur af störfum.

Jan. 2012