Persónuverndarstefna skattrannsóknarstjóra ríkisins

Skattrannsóknarstjóri ríkisins leggur ríka áherslu á að vernda persónuupplýsingar og tryggja að meðferð þeirra sé í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.[1] Markmið persónuverndarstefnu embættisins er að veita upplýsingar um hvernig unnið er með persónuupplýsingar hjá embættinu, hver tilgangur vinnslunnar er og hvað er gert við þær.

Persónuverndarstefnan  tekur eingöngu til einstaklinga en ekki lögaðila. 

Ábyrgðaraðili

Ábyrgðaraðili er skattrannsóknarstjóri ríkisins, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík  kt. 410293-2189.

Hafa má samband við embætti skattrannsóknarstjóra með því að hringja í síma 550 8800, senda erindi í gegnum heimasíðu embættisins srs.is eða með því að senda tölvupóst á srs@srs.is

Persónuvernd

Hægt er að hafa samband varðandi persónuverndarmál í netfangið srs@srs.is

Vinnsla persónuupplýsinga hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, tilgangur vinnslunnar og á grundvelli hvaða heimilda fer vinnslan fram

Meginhlutverk skattrannsóknarstjóra ríkisins er að hafa með höndum rannsóknir samkvæmt lögum um tekjuskatt og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af ríkisskattstjóra eða sem honum er falin framkvæmd á. Auk laganna um tekjuskatt má meðal annars nefna lög um virðisaukaskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lög um tryggingagjald, lög um ársreikninga og lög um bókhald, svo helstu lagaheimilda fyrir rannsóknum skattrannsóknarstjóra sé getið.[2] Í þessum lögum er embætti skattrannsóknar­­­stjóra ríkisins falið að rannsaka meint brot á umræddum lögum, en ítarleg ákvæði um hvernig standa skuli að rannsókn mála hjá skattrannsóknarstjóra er að finna í reglugerð um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna.[3]

Við rannsóknaraðgerðir skattrannsóknarstjóra er gætt ákvæða laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt.[4] Rannsóknir embættisins falla því undir svokallaða löggæslu­tilskipun[5] og eru þar með undanþegnar mörgum ákvæðum laga um persónuvernd þ.m.t. ákvæðum um upplýsinga- og aðgangsrétt hins skráða að persónuupplýsingum um sig (takmarkaður aðgangur).

Auk rannsókna samkvæmt fyrrgreindum lögum tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um hvernig refsimeðferð máls verði hagað, þ.e. hvort máli verði vísað til yfirskattanefndar sem úrskurðar sektir eða hvort máli verði vísað til rannsóknar lögreglu og dómsmeðferðar hjá dómstólum. Sé brot skýlaust sannað og undandreginn skattur undir tilteknum mörkum er skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilt að gefa aðila kost á að ljúka refsimeðferð máls með sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra. Í þeim tilvikum verður máli hvorki vísað til rannsóknar lögreglu né sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd.

Hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins eru þrjú svið, rannsóknarsvið, lögfræðisvið og stoðsvið. Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga á þessum sviðum er að undirbúa og rannsaka meint brot á þeim lögum sem áður var getið og ljúka refsimeðferð í þeim málum sem lýkur með sektargerð skattrannsóknarstjóra og hlutast til um refsimeðferð annarra mála. 

Dæmi um vinnslur í vinnsluskrá skattrannsóknarstjóra:

  • Stoðsvið greinir tilkynningar sem berast embættinu, aflar frekari gagna eftir atvikum og setur fram tillögu um hvort mál skuli tekið til rannsóknar.
  • Rannsóknarsvið tekur við máli frá stoðsviði, kynnir sér málið og tilkynnir skattaðila að skattrannsókn sé hafin.
  • Lögfræðisvið setur fram tillögu um refsimeðferð að rannsókn lokinni.
  • Lögfræðisvið útbýr sektargerð fari sektarmeðferð fram hjá skattrannsóknarstjóra.

Hvaðan berast persónuupplýsingar?

Vinnsla persónuupplýsinga er forsenda þess að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu við rannsóknir skattalagabrota.  Persónuupplýsingar berast bæði frá einstaklingum eða fulltrúum þeirra og frá lögaðilum, t.d. bönkum og fjármála­stofnunum. Einnig geta persónuupplýsingar borist frá öðrum ríkisstofnunum og öðrum opinberum aðilum, t.d. ríkisskattstjóra og frá erlendum skattyfirvöldum. 

Til hverra er persónuupplýsingunum miðlað?

Skattrannsóknarstjóri ríkisins kann að þurfa að afhenda persónuupplýsingar til þriðja aðila í þeim tilgangi að sinna lögboðnum verkefnum sínum. Dæmi um þetta er vísun mála til ríkisskattstjóra, yfirskatta­nefndar, lögreglu eða dómstóla.

Réttindi skráðs einstaklings og aðgangur að gögnum

Meginhlutverk skattrannsóknarstjóra ríkisins er rannsókn á meintum skattalagabrotum eins og áður var rakið. Þar sem gætt er ákvæða laga um meðferð sakamála við rannsóknar­aðgerðir skattrannsóknarstjóra falla rannsóknir embættisins undir löggæslu­tilskipunina, en aðgangsréttur hins skráða samkvæmt henni er takmörkunum háður.

Einstaklingur (hinn skráði) getur eigi að síður farið fram á að fá upplýsingar um vinnslu eigin persónuupplýsinga hjá embættinu og einnig óskað eftir aðgangi að þeim og er það þá metið í hvert sinn hvaða upplýsingar eru veittar og hvernig fer um aðgang að þeim.

Einstaklingur getur  lagt fram kvörtun til Persónuverndar sem fer með eftirlitshlutverk á sviði persónuverndar, sjá heimasíðu stofnunarinnar: http://www.personuvernd.is/.

Trúnaður

Starfsmenn skattrannsóknarstjóra hafa aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa til að sinna starfi sínu og fer það eftir starfssviði hvers og eins hvaða upplýsingum starfsmaður hefur aðgang að.  

Allir starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum og helst hún þótt látið sé af störfum. Við undirritun ráðningarsamnings skrifa allir starfsmenn undir yfirlýsingu um þagnarskyldu.

Öryggismál

Skattrannsóknarstjóri ríkisins ábyrgist að persónuupplýsingar sem óskað hefur verið eftir séu varðveittar á tryggum stað og enginn óviðkomandi aðili hafi aðgang að þeim. Settar hafa verið sérstakar verklagsreglur fyrir starfsmenn embættisins um varðveislu gagna og veitingu aðgangs að þeim. Verði persónuupplýsingum deilt með þriðja aðila er það einungis á grundvelli lögskipaðra verkefna sem eiga sér stoð í viðeigandi lögum.  

Tölvukerfi skattrannsóknarstjóra ríkisins eru rekin innan embættisins og hjá ríkisskattstjóra.

Vefsíða embættisins er hýst hjá Hugsmiðjunni á Íslandi. Engin tenging er á milli vefsíðunnar og annarra tölvukerfa embættisins.

Málaskrárkerfið GoPro er hýst innan embættisins en Póstþjónninn er hjá ríkisskattstjóra. 

Tímaskráning starfsmanna fer fram í Vinnustund sem er hluti af Oracle (fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins). Embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins er í greiðslu- og bókhalds­þjónustu hjá Fjársýslu ríkisins.

Varðveislutími

Persónuupplýsingar eru varðveittar á meðan þörf er á þeim og málefnalegar ástæður eru til. Skattrannsóknarstjóri ríkisins  hagar skjalamálum sínum í samræmi við lög um opinber skjalasöfn[6] og geymslutími þeirra gagna sem embættið vinnur með fer því alfarið eftir þeim  lögum. 

Vefkökur (e. cookies)

Vefkökur (e. cookies) eru litlar textaskrár sem eru vistaðar á tölvunni þinni eða í öðrum snjalltækjum þegar þú heimsækir vefsíðu.

Vefsíða skattrannsóknarstjóra ríkisins notar Google Analytics til vefmælinga. Við hverja komu inn á vefinn er m.a. skráður fjöldi innlita, lengd hvers innlits, hvaða síður innan vefsins eru skoðaðar og hversu oft, leitarorð, hvaða stýrikerfi eða vafri er notaður við skoðunina og á hvaða tíma dags vefurinn er skoðaður.

Þessar upplýsingar eru m.a. notaðar til endurbóta á vefnum og þróunar hans, til að fá yfirsýn yfir notkun vefjarins, á hvaða efni notendur hafa mestan áhuga og til þess að aðlaga heimasíðuna að þörfum notenda.

Aðrar vefsíður geta ekki lesið upplýsingarnar sem eru geymdar á vefkökunni  og ekki er gerð tilraun til að komast yfir frekari upplýsingar um hverja komu eða tengja saman við aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

Október 2018


[1] Sjá lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (hér lög um persónuvernd).

[2] Sjá lög nr. 90/2003 um tekjuskatt, lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, lög nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, lög nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lög nr. 113/1990 um tryggingagjald, lög nr. 3/2006 um ársreikninga og lög nr. 145/1994 um bókhald, öll með síðari breytingum.

[3] Reglugerð nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna með síðari breytingum.

[4] Sjá lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála með síðari breytingum.

[5] Um er að ræða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/680.

[6] Sjá lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.